Nýjast á Local Suðurnes

Kaupa meirihlutann í Samkaupum

Verslun Nettó við Krossmóa

Í dag var undirritaður kaupsamningur milli Orkunnar sem kaupanda og KSK, sem seljanda, um alla hluti seljanda í Samkaupum, að nafnvirði kr. 221.386.719 sem nemur 51,3% hlutafjár Samkaupa.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Skel fjárfestingafélagi, eiganda Orkunnar, til Kauphallarinnar. Þar kemur einnig fram að kaupverð hlutanna er samtals 2.878 m.kr. og miðar við að verðmæti hlutabréfa Samkaupa í heild sinni (e. equity value) sé 5.610 m.kr. sem samsvarar 13 kr. á hvern útgefinn hlut. Viðskiptaverðið felur í sér að heildarvirði Samkaupa (e. enterprise value) sé 9.606 m.kr. út frá skuldastöðu í lok fyrsta ársfjórðungs.

Kaupverðið verður greitt með afhendingu á nýju hlutafé í Orkunni. Verðmæti hlutabréfa Orkunnar við uppgjör viðskiptanna verður 10.669 m.kr. og miðast við bókfært virði félagsins í ársreikningi SKEL um síðustu áramót. Orkan á jafnframt um 81% hlut í Lyfjavali sem er bókfærður á 1.928 m.kr. og einnig hlut í Samkaupum, vegna sameiningar Atlögu og Samkaupa, sem metinn er á um 545 m.kr. í viðskiptunum.

Samningur aðila gerir ráð fyrir að samstæða félaganna verði mynduð með sambærilegu sniði og skráð smásölufyrirtæki hérlendis. Samstæðan mun í upphafi starfa á sviði matvöru, orku, bílaþvottar og lyfsölu og verða sviðin rekin á samstæðugrunni.

Viðskiptin eru háð eftirfarandi skilyrðum, segir í tilkynningunni:

1. Að samruna Samkaupa og Atlögu ehf. (áður Heimkaup ehf.), kt. 430910-0190, Hagasmára 1, 201 Kópavogi, samkvæmt samrunasamningnum dagsettum 20. febrúar 2025, sé lokið;

2. Að fyrir liggi skuldbindandi áskriftarloforð frá fjárfestum, eða sölutrygging íslensks banka, um áskrift að nýju hlutafé í Orkunni (eða nýju móðurfélagi samstæðu) að verðmæti a.m.k. 2.000 m.kr. sem skal nýtt til að efla fjárhagsstöðu Samkaupa;

3. Að Orkan hafi komist að skuldbindandi samkomulagi við aðra hluthafa í Samkaupum um kaup á eignarhlut þeirra í félaginu þannig að samanlagður eignarhlutur Orkunnar og annarra aðila tengdum SKEL nemi að lágmarki 90,01% í kjölfar viðskipta;

4. Samþykki fulltrúaráðs KSK;

5. Að Samkeppniseftirlitið samþykki að í viðskiptunum felist ekki samruni sem beri að ógilda eða setja skilyrði fyrir samkvæmt 17. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005.

Verði viðskiptin að veruleika eru aðilar sammála um að vinna í sameiningu að því að Samkaup nái vopnum sínum og vaxi á neytendamarkaði, bæði með innri og ytri vexti, og að í framhaldinu skuli stefnt að skráningu allra hluta móðurfélags samstæðunnar á skipulegan markað í Kauphöll á Íslandi fyrir árslok 2027.

Eftir uppgjör viðskiptanna og fyrirhugaða hlutafjáraukningu verður hlutur SKEL í móðurfélagi samstæðunnar um 63% og áætlað virði eignarhlutar SKEL um 13.500 m.kr. Öðrum hluthöfum Lyfjavals verður gert tilboð um að ganga inn í viðskiptin á sömu skilmálum og ofangreind viðskipti, sem og öllum öðrum hluthöfum Samkaupa, eftir að skilyrðin eru uppfyllt.

Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason, forstjóri SKEL, tjáir sig um málið í tilkynningunni:

„Við erum ánægð að vera skrefinu nær því að búa til nýtt afl á íslenskum smásölumarkaði. Það er í samræmi við þau markmið sem við kynntum í síðasta uppgjöri um þróun á samstæðu Orkunnar. Samkaup er félag með langa sögu og trausta viðskiptavini um allt land. SKEL mun leggja áherslu á að einfalda reksturinn, draga úr kostnaði og setja viðskiptavininn í fyrsta sæti. Þær áherslur hafa gefist vel í rekstri Orkunnar. Samkaup og Heimkaup (nú Atlaga ehf.) hafa glímt við áskoranir í sínum rekstri, með sameiningu félaganna og endurskipulagningu rekstrar verður til öflugur keppinautur á markaði.”