Nýjast á Local Suðurnes

Segja lögbrot að senda barnshafandi konur til Reykjavíkur vegna lokana á HSS

Ljósmæðravakt Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja hefur verið lokuð vegna sumarleyfa starfsfólks í einn mánuð á hverju sumri. Á meðan á lokun stendur er þó veitt mæðravernd, en konum sem þurfa frekari þjónustu er gert að leita á Landspítalann í stað þess að fá þjónustu á HSS eins og aðra mánuði ársins.

Þetta fyrirkomulag veldur barnshafandi konum og fjölskyldum þeirra óöryggi, óþægindum og jafnvel tekjuskerðingu, segir í tilkynningu sem fylgir undirskriftasöfnun sem hefur verið sett í gang vegna málsins.

Teljum við það ólíðandi í svo stóru heilbrigðisumdæmi, en það þjónar um 25.000 manns skv. tölum Hagstofunnar.
Í lögum um heilbrigðisþjónustu segir að heilbrigðisþjónustu skuli veita á „viðeigandi þjónustu stigi og að heilsugæslan sé að jafnaði fyrsti viðkomustaður sjúklinga“ (Lög um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007). Lög eru því brotin þegar barnshafandi konur á Reykjanesi þurfa að sækja þjónustu, sem annars er veitt á HSS, til Reykjavíkur vegna lokunar ljósmæðravaktar.

Við óskum eftir því að barnshafandi konur á Reykjanesi hafi aðgang að ljósmóður á HSS allan sólahringin, allt árið. Segir einnig á vefsíðunni sem heldur utan um undirskriftasöfnunina og finna má hér.