Ráðherra vill móttökubúðir fyrir flóttafólk sem næst landamærunum

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, vill sjá það sem hann kallar móttökubúðir fyrir hælisleitendur sem næst landamærunum, og á þá væntanlega við nágrenni Keflavíkurflugvallar.
Þetta kom fram í umræðum um útlendingamálin í Pallborði Vísis í morgun. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra vill halda áfram þeirri vinnu sem Jón Gunnarsson fráfarandi dómsmálaráðherra kom af stað. Hann vill ganga lengra í umbótum en gert er í nýju útlendingafrumvarpi. Nefnir hann sem dæmi að kærunefnd útlendingamála hafi komist að annarri niðurstöðu varðandi hælisleitendur frá Venesúela en gert sé víðast hvar annars staðar. Þess vegna séu fleiri að koma hingað frá Venesúela, ásóknin sé gífurleg þaðan.
„Það er ákveðið stjórnleysi í málaflokknum,“ sagði Barni og kvað fast að orði. „Ég vil að okkar kraftar fari í að hlúa að því fólki sem við höfum skuldbundið okkur samkvæmt alþjóðlegum samningum til að taka við vegna þessa að það getur ekki snúið aftur til síns heima, og hjálpa því að aðlagast samfélaginu. Ég vil ekki að við eyðum milljörðum á hverju ári, tíu milljörðum núna, í að finna út úr því hvort við ætlum að taka utan um þetta fólk og hjálpa því að aðlagast samfélaginu. Sko það gengur ekki. Eitt af því sem þingið hefur ekki afgreitt og við höfum ekki fengið í gegn, við Sjálfstæðismenn, er að á landamærunum verði fleirum snúið við. Tilhæfulausar umsóknir, fólk sem er þegar með vernd í samstarfsríkum okkar og vill samt koma hingað til að fá vernd.“