Nýjast á Local Suðurnes

Makrílveiðar ganga vel – Reyna að sporna við átu með kælingu

Þorbjarnartogararnir Gnúpur GK 11 og Hrafn Sveinbjarnarson GK 255 hafa undanfarnar vikur verið á makrílveiðum. Veiðarnar ganga vel og hefur miklu magni af makríl verið landað í Grindavíkurhöfn þrátt fyrir mikla óvissu á mörkuðum eins og kvótinn.is hefur greint frá.

Hrafninn kom inn til löndunar þann 16. júlí með 300 tonn af heilfrystum makríl og 50 tonn af síld sem fengust í Grindavíkurdýpi. Kvótinn.is tók Hilmar Helgason, skipstjóra á Hrafninum í viðtal, en Hilmar segir mikla átu vera í makrílnum en þeir á Hrafninum reyni að sporna við því með því að kæla aflann hratt niður:

„Það er mikil áta í makrílnum þarna úti. Það er mjög mikið af átu sem kemur á dekkið, þegar maður er að hífa upp úr átuflekkjunum sem makríllinn er að djöflast utan í er átan í haugum á dekkinu. Það er því nóg fyrir hann að éta og meðan hann liggur í átunni fer hann ekki í þorskseiði og önnur seiði. Það eru stórir átu flekkir þarna úti og mörg skipin eru komin með forrit sem sýna flekkina á korti og hvert hitastigið er og spána fram í tímann. Það er verið að setja svoleiðis búnað upp hjá mér núna á eftir. Þá getur maður bara keyrt í átuflekkina til að sækja makrílinn sem liggur í þeim.

„Þetta byggist allt á því að vera fljótur að ná þessu,” segir Hilmar. Átan í makrílnum skapar ákveðin vandamál við vinnslu á honum, ef fiskurinn er fullur af henni þegar hann er veiddur. Átan étur hann þá innanfrá. Annars virðist hann vera mjög fljótur að losa sig við átuna úr sér aftur í sjónum.

„Því er mikilvægt að ná að kæla hann strax niður til að stöðva niðurbrot vegna átunnar og við bestu aðstæður erum við að ná hitastiginu í makrílnum niður í mínus eina og hálfa gráðu á tveimur tímum. Við byrjum kælinguna í móttökunni og keyrum fiskinn svo fram eftir skipinu í kör með krapa í. Við höldum hitastiginu allan tímann svona lágu, því það styttir svo frystitímann um alltað hálftíma og það munar miklu í afköstum. Við erum með mjög öflugt kælikerfi sem nær að framleiða allt að 4.000 lítra af ískrapa á klukkustund og það skiptir miklu máli,” segir Hilmar.

Viðtalið og greinina má lesa í heild sinni á kvótinn.is