Salan á Óla á Stað GK: “Bæjarráð Grindavíkur brást skyldum sínum”
Salan á línubátnum Óla á Stað GK var til umræðu á fundi bæjarstjónar Grindavíkur í gær, með sölunni á bátnum fylgdi 1.164 tonna kvóti í krókaaflamarkskerfinu, en báturinn var seldur til Faskrúðsfjarðar. Grindavíkurbær hafði forkaupsrétt á bátnum en hann var ekki nýttur, tekist var á um það atriði á bæjarstjórnarfundinum í gær.
Fulltrúar Framsóknarflokks í bæjarstjórn lögðu fram bókun á fundinum þar sem þeir harma framgöngu bæjarráðs Grindavíkur og forystumanna bæjarstjórnar í meðferð þeirra varðandi forkaupsrétt Grindavíkurbæjar á línubátnum með aflaheimildum. Í bókuninni segir meðal annars:
Bæjarráð Grindavíkur hefur algerlega brugðist skyldum sínum um að gera allt sem í þeirra valdi stóð til að verja sameiginleg velferðarmál íbúa bæjarins og missa ekki aflaheimildir úr bænum.
Það var mikið ábyrgðar- og dómgreindarleysi hjá forseta bæjarstjórnar að þrátt fyrir varnaðarorð lögmanns kaupanda og þess heimaaðila sem áhuga hafði á að ganga inn í kaupin var málið tekið út af dagskrá bæjarstjórnarfundar þann 15. desember 2015….
…Ástæðan fyrir því að málið var tekið af dagskrá var bréf seljanda um afturköllun undirritaðs sölutilboð en ljóst var strax að kaupandi og seljandi deildu um gildi þeirrar afturköllunar.
Meirihluti G og D lista svaraði því til í bókun að nýting forkaupsréttar hefðu verið áhættusöm viðskipti.
Við teljum ekki skynsamlegt að fara þessa leið ef ekkert sjávarútvegsfyrirtæki í Grindavík getur gengið inn í kaupin. Þar sem um er að ræða rúmlega þriggja milljarða fjárfestingu finnst okkur áhættan verulega mikil fyrir sveitarfélagið.