Höfnin ber ábyrgð á mengunarvörnum – Hafa óskað eftir aðstoð Umhverfisstofnunar

Reykjaneshöfn ber ábyrgð á mengunarvörnum vegna strands flutningaskipsins Fjordvik í Helguvík, en óskað hefur verið eftir aðstoð Umhverfisstofnunnar vegna málsins.
„Þessi atburður á sér stað innan hafnarsvæðisins, svo það er höfnin sem ber ábyrgð á mengunarvörnum, en þeir hafa óskað eftir aðstoð Umhverfisstofnunar vegna stærðar,“ segir Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, í samtali við mbl.is.
Starfsmaður Umhverfisstofnunar hefur verið á staðnum síðan í nótt með mengunarvarnarbúnað en ekki hefur verið hægt að ráðast í aðgerðir vegna veðurs. Engar staðfestar fregnir hafa fengist af umfangi mengunarinnar, en samkvæmt Kristínu er megn lykt á svæðinu.