Nýjast á Local Suðurnes

Hluti grunnskólabarna fær strætókort án endurgjalds

Meirihluti bæjaráðs Reykjanesbæjar samþykkti á fundi sínum þann 4. janúar að þeir nemendur í grunnskólum sveitarfélagsins sem þurfa að sækja skólaúrræði utan skólahverfis eigi rétt á strætókorti. Jafnframt var samþykkt að nemendur í 1.-10. bekk í grunnskólum Reykjanesbæjar sem búa í meira en 1,5 km göngufjarlægð frá hverfisskóla sínum fái jafnframt strætókort án endurgjalds.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks sátu hjá við afgreiðsluna, líkt og þeir hafa gert þegar málefni strætó eru til umræðu, en þeir eru ekki hlyntir gjaldtöku í fyrir þjónustuna. Árni Sigfússon og Böðvar Jónsson, fulltrúar flokksins í bæjarráði lögðu fram eftirfarandi bókun:

“Við undirritaðir, fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, sitjum hjá við afgreiðslu málsins þar sem við höfum frá upphafi lagst gegn gjaldtöku í strætó og tökum því ekki afstöðu til útfærslu á henni.”