Hákotstangi valinn undir smáhýsi þrátt fyrir að langt sé í þjónustu
Niðurstöður grenndarkynningar vegna staðsetningar smáhýsa á Hákotstanga í Innri-Njarðvík, voru kynntar á fundi velferðarráðs á dögunum.
Til að greina þörfina sem er til staðar hefur starfsfólk velferðarsviðs unnið þarfagreiningu á stöðu heimilislausra í Reykjanesbæ. Sú vinna hefur verið til fyrirmyndar og er niðurstaðan sú að byggja þarf fleiri smáhús í sveitarfélaginu, segir í fundargerð.
Varðandi staðsetningar smáhúsanna var farið af stað með að finna staðsetningu fyrir húsin og hanna smáhúsin með þarfir skjólstæðinga velferðarsviðs sem glíma við fjölþættan vanda í huga. Lagðar voru til nokkrar staðsetningar víðsvegar um sveitarfélagið og urðu Hákotstangar og Grófin fyrir valinu. Ákveðið var að byrja á Hákotstöngum.
Horft er til bresku hugmyndafræðinnar ,,Housing First” sem er aðferð til að hjálpa skjólstæðingum velferðarsviðs sem glíma við heimilisleysi með húsnæði og stuðningsþjónustu. Þar er aðgengi að varanlegu húsnæði í forgangi með sérsniðnum opnum stuðningi við íbúa þar sem áherslan er á að efla þau til virkni í samfélaginu.
Úrræði smáhúsa sem slík eru ekki ný úrræði. Þau hafa verið til staðar í Reykjanesbæ í nokkur ár og gefist nokkuð vel. Reykjavíkurborg hefur verið að fjölga slíkum úrræðum í borginni og hefur reynst vel að mestu leyti. Aðalatriðið er að íbúar okkar sem eiga við fjölþættan vanda að stríða fái öruggt skjól og samastað. Engin dæmi eru um að slík úrræði lækki fasteignaverð í viðkomandi hverfi. Hér erum við að slá verndarhendi yfir okkar viðkvæmasta hóp og vonumst til að þessi hópur upplifi í kjölfarið öryggi og skjól í sinni tilveru, segir í fundargerðinni.
Þau sjónarmið sem fram koma í niðurstöðum grenndarkynningar eru vel skiljanleg og eðlileg í ljósi þess að hér er verið að byggja upp þjónustu við stækkandi hóp íbúa í sveitarfélaginu, þjónustu sem hefur verið lítið sýnileg og er mikilvægt að byggja upp af kostgæfni. Hægt er að taka undir þær ábendingar sem fram koma um að vegalengd í nærþjónustu og almenningssamgöngur er lengri en best væri á kosið en önnur atriði þóttu vega þarna upp á móti við val á staðsetningu, m.a. að góð gönguleið er að almenningssamgöngum og heilsugæsla fyrirhuguð á svæðinu. Áhersla er lögð á að það húsnæði sem er í byggingu fyrir þetta verkefni sé vistlegt og falli vel að umhverfinu. Varðandi þjónustu við þennan notendahóp er í undirbúningi að koma á nærþjónustu og ráðgjöf við íbúa smáhúsanna með áherslu á batahugmyndafræði og skaðaminnkandi nálgun, segir jafnframt.