Nýjast á Local Suðurnes

Hættuleg gatnamót við Hringbraut – Ljósin til en ekki fjármagnið til að setja þau upp

Nokkrir harðir árekstrar hafa orðið á gatnamótum Hringrautar og Faxabrautar í Reykjanesbæ að undanförnu, töluvert eignatjón hefur orðið í árekstrunum auk þess sem einhverjir hafa þurft á aðhlynningu að halda á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Gatnamótin hafa lengi verið talin hættuleg en mikil umferð fer um svæðið á annatímum.

Samkvæmt uppýsingum frá umhverfissviði Reykjanesbæjar eru gatnamót sem talist geta hættuleg sífellt til skoðunar hjá sveitarfélaginu, það á til að mynda við um umrædd gatnamót og gatnamót við Njarðarbraut þar sem banaslys varð á dögunum.

Guðlaugur Helgi Sigurjónsson, sviðsstjóri umhverfissviðs Reykjanesbæjar segir menn vera meðvitaða um vandamálin við nokkur gatnamót í sveitarfélaginu en að fjármagn skorti til að gera umbætur.

“Þessi mál eru sífelt í skoðun hjá okkur. Líklega verða gerðar breytingar á gatnamótum við Hringbraut/Faxabraut næst og eru umferðarljós sennilega sú leið sem farin verður. Við eigum ljósin til en skortir fjármagn til að gera breytingar á gatnamótunum og setja ljósin upp.” Sagði Guðlaugur Helgi.

Þá sagði Guðlaugur Helgi að hjá Reykjanesbæ væri unnið eftir umferðaröryggisáætlun sem var unnin árið 2012 og miðar meðal annars að því að kortleggja hættuleg gatnamót.