Nýjast á Local Suðurnes

Keflavík fær styrk frá UEFA

Knattspyrnudeild Keflavíkur hefur hlotið 25.000 evru styrk úrsjóðnum „UEFA Refugee Grant,“ sem miðar að því að styðja knattspyrnutengd verkefni fyrir flóttamenn og hælisleitendur. Þetta er í annað skipti sem Keflavík hlýtur styrk úr sama sjóði, og markmiðið er að skapa vettvang fyrir börn og ungmenni úr mismunandi menningarheimum til að sameinast í gegnum fótbolta.

Fyrstu gjaldfrjálsu æfingarnar hefjast fyrstu helgina í mars og fara fram í íþróttahúsinu í Háaleitisskóla. Þá er stefnt að halda að minnsta kosti eina æfingu í Nettó-höllinni í viku. Allir þátttakendur fá knattspyrnubúning, og þeir sem þurfa á aðstoð að halda með skó fá hana. Markmiðið er að gera knattspyrnu aðgengilega fyrir sem flesta og skapa umhverfi þar sem allir finna sig velkomna.

Ragnar Aron Ragnarsson, framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar Keflavíkur, lýsir yfir þakklæti fyrir stuðning UEFA og segir verkefnið hafa árangursríka sögu: „Seinast var verkefnið unnið í samstarfi við Njarðvík þar sem við tókum á móti góðum fjölda barna af erlendum uppruna sem sýndu mikinn áhuga á þátttöku í íþróttastarfi. Við höfum séð hvað knattspyrna hefur jákvæð áhrif á sjálfstraust þeirra, félagslega þátttöku og aðlögun í samfélagið. Börnin fá tækifæri til að tengjast jafningjum og eignast vini, sem er ómetanlegt.“

Verkefnið fellur einnig vel að stefnu Reykjanesbæjar um að efla þátttöku allra barna í samfélaginu. “Það er mikilvægt að við vinnum í sameiningu að því að öll börn séu virkir þátttakendur í samfélaginu. Íþróttir, tómstundir og annað frístundastarf eru kjörinn vettvangur til þess að stuðla að vellíðan barna í gegnum leik og félagsleg samskipti milli barna með leiðsögn frá ábyrgum fullorðnum leiðtogum.” sagði Hilma Hólmfríður Sigurðardóttir, teymisstjóri virknis- og ráðgjafateymis Velferðarsviðs Reykjanesbæjar.