Nýjast á Local Suðurnes

Greidd verða atkvæði um fimm tillögur að nöfnum

Nefnd sem skipuð var til að undirbúa tillögur að nafni á nýtt sveitarfélag hefur ákveðið að senda tvær tillögur til viðbótar til umsagnar Örnefnanefndar. Áður hefur nefndin sent 15 tillögur til umsagnar og Örnefnanefnd lagst gegn 8 af þeim.

Örnefnanefnd hefur allt að þrjár vikur til að veita umsögn um nýju tillögurnar. Sem kunnugt er munu íbúar fá tækifæri til að greiða atkvæði um tillögur að nöfnum. Atkvæðagreiðsla fer fram að umsagnarfresti liðnum en þá verða tillögur að nöfnum í atkvæðagreiðslu birtar.

Nefndin hefur ákveðið að greidd verði atkvæði í tveimur umferðum. Í fyrstu umferð um fimm tillögur og í þeirri seinni um þau tvö nöfn sem fá flest atkvæði í fyrri umferðinni.

Atkvæðagreiðsla verður rafræn og munu íbúar sveitarfélaganna sem fæddir eru 2001 eða fyrr hafa atkvæðisrétt. Samhliða mun fara fram ,,skuggaatkvæðagreiðsla” í grunnskólunum tveimur.