Nýjast á Local Suðurnes

Framlengdu vegabréfin verða ógild

Íslenskir ríkisborgarar sem ætla að ferðast á vegabréfi með framlengdan gildistíma gætu lent í vandræðum frá og með 24. nóvember næstkomandi. Ástæðan er sú að Alþjóða flugmálastofnunin gerir þá kröfu að vegabréf séu lesanleg í vél, þessi krafa verður ófrávíkjanleg frá og með 24. nóvember.

Íslensk vegabréf uppfylla þetta ákvæði á upprunalegum gildistíma sínum en það er ekki hægt að lesa vegabréf með framlengdan gildistíma í vél. Samkvæmt frétt á vef Þjóðskrár Íslands þýðir þetta að ekki er hægt að ábyrgjast að framlengd vegabréf verði tekin gild eftir 24. nóvember. Þar segir að ekki sé hægt að ábyrgjast hvernig verði litið á framlengd vegabréf við landamæraeftirlit erlendis. Eftir það verði það alfarið á ábyrgð einstaklings að ferðast með vegabréf með framlengdan gildistíma.

Þó er tekið fram að neyðarvegabréf verða áfram heimil, þó þau séu ekki véllesanleg. Það er vegna þess að neyðarvegabréf eru einna helst gefin út til að aðstoða íslenska ríkisborgara í neyð við að komast heim eða á næsta stað þar sem hægt er að fá vegabréf.