Nýjast á Local Suðurnes

Fasteignaskattar hækkað langmest í Reykjanesbæ yfir 6 ára tímabil

Myndin tengis fréttinni ekki beint

Fasteignaskattur í fjölbýli hefur hækkað mest í Keflavík, Reykjanesbæ, eða um 136%, frá árinu 2013, sé miðað við könnun verðlagseftirlits ASÍ. Þá er hækkun einnig mest á lóðaleigu í fjölbýli, 122,4%, í Keflavík. Miklar hækkanir má finna í öllum gjaldaflokkum hjá 15 stærstu sveitarfélögum landsins samkvæmt könnunni.

Þegar tillit hefur verið tekið til breytinga á fasteignamati má sjá að innheimtur fasteignaskattur hækkaði hjá 14 af 15 sveitarfélögum á tímabilinu og nemur hækkunin frá 9,2% í sérbýli í Vestmannaeyjum þar sem hún er minnst upp í 136% í fjölbýli í Keflavík, Reykjanesbæ þar sem hún er mest.

Næst mest hækkar innheimtur fasteignaskattur í fjölbýli í Njarðvík, Reykjanesbæ, 131,2% en þar á eftir kemur Reykjavíkurborg með 65,7 % hækkun í fjölbýli í Laugarneshverfi/Vogum og 65% hækkanir í Seljahverfi. Minnstar hækkanir í fjölbýli eru hjá Vestmannaeyjabæ, 13,3%.

Í sérbýli eru hækkanir einnig mestar í Keflavík,  124,1% og næst mestar í Njarðvík, 121,7%. Þar á eftir kemur Fjarðabyggð með 71,7% hækkun. Minnstar hækkanir eru í sérbýli hjá Vestmannaeyjabæ, 9,2%.

Innheimt lóðaleiga hækkar mest í fjölbýli í Keflavík, um 122,2% og Njarðvík, um 115,1%. Þar á eftir kemur 82,8% hækkun á lóðaleigu í fjölbýli í Glerárhverfi Akureyri. Minnstu hækkun á innheimtri lóðaleigu í fjölbýli má síðan finna í Austurbæ, Linda- og Salahverfi í Kópavogi þar sem hún hækkaði um 10% en í Kópavogi er lóðaleigan ekki háð lóðamati heldur föst krónutala á fermetra. Eina dæmið um lækkun  á innheimtri lóðaleigu má finna á Akranesi en þar lækkar hún um 33%.

Í sérbýli má einnig finna mestu hækkanir á lóðaleigu í Keflavík, 106,3%. Einu lækkunina á lóðaleigu í sérbýli er að finna hjá Akraneskaupstað, -34,2%.

Innheimt fráveitugjöld í fjölbýli hækkuðu mest hjá Seltjarnarneskaupstað um 128,2%, næst mest í Keflavík, um 74% og Njarðvík um 70%. Minnst er hækkunin 8% hjá Kópavogsbæ og næst minnst 10% hjá Fjarðabyggð. Innheimt fráveitugjöld í sérbýli hækka sömuleiðis mest hjá Seltjarnarnesbæ um 92% og næst mest um 65% í Keflavík og um 63% í Njarðvík. Flest sveitarfélögin lækkuðu álagningarhlutfall sitt á þessu 6 ára tímabili eða 8 af 15.

Vatnsgjald hefur hins vegar lækkað mest á tímabilinu  í Keflavík, um 15,2% og næst mest hjá Vestmanneyjabæ um 11%.

Frá árinu 2014 hafa sorphirðugjöld hækkað hjá öllum sveitarfélögum og í mörgum tilfellum mikið, en þó minnst í Reykjanesbæ eða um tæp 20%.