Færðu Tryggva Hansen skjólfatnað og stígvél

Tryggvi Hansen hefur verið nokkuð áberandi í fjölmiðlum undanfarnar vikur en hann hefur í vetur hafst við í skógarjaðri í Reykjavík, í tjaldi sem hann smíðaði sjálfur. Frá þessu er greint á vefsíðu Grindavíkurbæjar.
Tryggvi er Grindvíkingum að góðu kunnur en hann var aðsópsmikill hér í bæ undir lok síðustu aldar. Sólarvé okkar Grindvíkinga er hönnun Tryggva og Jón Sigurðssonar, fyrrum bæjartæknifræðings, og þá hafði Tryggvi stórar hugmyndir um að reisa hér myndarlegt heiðið hof. Þær hugmyndir hlutu þó ekki brautargengi og voru vægast sagt umdeildar, svo ekki sé meira sagt.
Þrátt fyrir að búa í tjaldi fjarri erli nútímasamfélags hafði Tryggvi haft af því veður að Voot Beita í Grindavík væri að selja bestu stígvél á landinu, eins og hann orðaði það sjálfur. Tryggvi hafði samband við starfsmenn Voot til að falast eftir eins og einu pari af stígvélum en strákarnir hjá Voot bættu um betur og færðu Tryggva að gjöf stígvél, buxur, sjóstakk, vettlinga, húfur og buff. Tryggvi ætti því að ná að halda á sér hita næstu daga!