Nýjast á Local Suðurnes

Bæjarstjóri telur að nú sé tæki­færi til að lækka álög­ur á íbúa

Reykjanesbær tilkynnti í gær að aðlögunaráætlun bæjarins hvað varðar fjárhagsmál sé fallin úr gildi og bæjarstjórn sé ekki lengur skylt að bera ákvarðanir undir Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga.

Í tilkynningunni kom fram að í framhaldinu yrði farið yfir framtíðaráætlanir bæjarfélagsins, en fjölmörg stór verkefni eru á teikniborðinu í uppbyggingu skóla- og íþróttamannvirkja, ýmissa fjárfestinga og framkvæmda. Morgunblaðið ræddi við Kjartan Má Kjartansson bæjarstjóra og birti umfjöllun um málið í blaði dagsins, en þar er haft eftir Kjartani að sveitarfélagið sé ekki lengur bundið að því að skila ákveðinni upphæð í formi fasteignaskatts.

„Nú geta bæj­ar­full­trú­ar farið að horfa á þætti sem áður voru negld­ir mjög fast niður. Við vor­um til dæm­is bund­in af því að skila ákveðinni upp­hæð í formi fast­eigna­skatts. Nú ætti að vera tæki­færi til að lækka álög­ur á íbúa ef ár­ferðið versn­ar ekki mikið,“ seg­ir Kjart­an í Morg­un­blaðinu í dag.