Auknar líkur á kvikuhlaupi eða eldgosi á næstu dögum

Auknar líkur eru á kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi á Sundhnúkagígaröðinni á næstu dögum. Í tilkynningu Veðurstofu segir að jarðskjálftum fjölgi hægt og telja sérfræðingar Veðurstofunnar nægan þrýsting hafa byggst upp í kerfinu til að koma af stað nýjum atburði.
Í tilkynningunni segir að GPS-mælingar sýni að síðustu daga hafi örlítið hægst á landrisi. Það, samhliða aukinni skjálftavirkni líkt og mældist í gær, gefi vísbendingar um að það styttist í næsta kvikuhlaup og jafnvel eldgos.
Aukin smáskjálftavirkni mældist á Sundhnúkagígaröðinni í gær og stóð yfir í um 50 mínútur.