Ragnheiður Sara flytur til Kaliforníu – “Hef lengi stefnt að þessu”
Crossfit prinsessan Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir mun flytja búferlum til Kaliforníu á næstu misserum og freista þess að vinna sér sæti á Heimsleikunum í crossfit í gegnum California Regional undankeppnina. Sara, eins og hún er janfan kölluð, hefur síðustu tvö ár komist inn á Heimsleikana í gegnum Evrópuleikana.
Sara segist hafa tekið þessa ákvörðun eftir að hafa tekið þátt í keppni í Dubai fyrir skömmu, eftir það hafi hún áttað sig á því að allar aðstæður til æfinga væru mun betri erlendis, auk þess sem veðrið væri aðeins skárra. Sara mun búa hjá ættingjum sínum í Kaliforníu, en í spjalli við sjónvarpsþáttinn Morning Chalk Up, sem sendur er út á Youtube-rás Crossfit-leikanna sagðist hún lengi hafa haft hug á að búa erlendis og æfa.
Aðspurð sagði Sara að það væri spennandi kostur að flytjast til Kaliforníu, þar kæmist hún á brimbretti og að það yrði tilbreyting að komast út að hlaupa án þess að eiga það á hættu að lenda í stormi.
Viðtalið við Söru má heyra í heild sinni hér fyrir neðan.