Nýjast á Local Suðurnes

Endurvekur handboltafélag í Reykjanesbæ – “Ótrúlegt að það sé ekkert starfandi handknattleiksfélag hér”

Handknattleiksfélag Reykjanesbæjar, betur þekkt sem HKR, var stofnað árið 2008 og fagnaði því 10 ára afmæli á síðasta ári. Lítil sem engin starfsemi hefur verið í félaginu undanfarin fjögur ár.

Félagið á þó að baki skemmtilega sögu og hefur náð miklum árangri í yngri flokkum, segir á Fésbókarsíðu félagsins, en þar er farið stuttlega í gegnum sögu félagsins.

Nú hefur uppalinn Vestmannaeyingur, Birkir Guðsteinsson, endurvakið félagið og það er óhætt að segja að hann setji markið hátt, en stefnan er sett á að koma félaginu í fremstu röð svo fljótt sem auðið er. Birkir býr í Reykjanesbæ en hefur stundað og þjálfað handknattleik frá árinu 2010 í hinum miklu handboltabæjum Selfossi og Vestmannaeyjum.

Birkir starfar nú sem þjálfari og styrktarþjálfari hjá yngri flokkum Fjölnis. Hann telur framtíðina vera bjarta þegar kemur að handboltanum í Reykjanesbæ, en finnst ótrúlegt að ekki sé handknattleikslið í fremstu röð á svæðinu.

“Mér finnst ótrúlegt að það sé ekkert starfandi handknattleiksfélag hér í Reykjanesbæ, sem er eitt stærsta sveitarfélag á Íslandi og íþróttin ein sú vinsælasta á landinu.” Segir Birkir í spjalli við Suðurnes.net.

“Með endurkomu HKR fjölgar tækifærum og úrvalið verður meira fyrir börnin. Mín stefna er að taka HKR og stækka félagið með vönduðum vinnubrögðum og öflugu teymi og mynda stefnu með fagmennsku að leiðarljósi. Ég vona að með minni hjálp komist félagið lengra.” Segir Birkir.

Áhugasömum er bent á að hafa samband við Birki ef menn vilja leggja hönd á plóg, en kappinn leitar meðal annars að fólki í stjórn félagsins um þessar mundir.