Vilja stofna hjólaleigu á Suðurlandi – Hefja söfnun á Karolina Fund

Suðurnesjafólkið og hjónakornin Halldór V. Jónsson og Jóhanna Berglind stefna á að opna hjólaleigu á Suðurlandi fyrir erlenda og innlenda ferðamenn. þau safna nú fyrir stofnkostnaðiðnum á vefsíðunni Karolina fund.
Þau þekkja orðið vel til á svæðinu eftir að hafa búið í Reykholti í 5 ár, þar sem þau hafa rekið leigubílaþjónustuna Country Taxi, við góðan orðstír, undanfarin tvö ár.
“Við viljum vekja athygli ykkar á því að við erum að hefja söfnun á Karolina Fund, þar sem við biðlum til fólks að aðstoða okkur við að koma á fót hjólaleigu í Gullna hringnum. Stefnan er að hafa þetta frekar fjölskylduvænt þar sem við vitum af eigin hendi hversu dýr fjölskylduskemmtun getur verið.” Segir í tilkynningu frá þeim hjónum.
Þau stefna á að vera með 20 til 25 hjól til að byrja með og leigja þau út á hóflegu verði, enda telja þau þörf á hjólaleigu í Gullna hringnum til að gefa ferðamönnum, bæði erlendum og innlendum tækifæri til að upplifa í nálægð það sem þetta fallega svæði hefur uppá að bjóða.
“Við höfum bæði margra ára reynslu í að vinna með hinum ýmsu viðskiptavinum og vitum nákvæmlega hversu áríðandi það er að geta veitt þeim hágæða þjónustu og er það þess vegna sem að við viljum bjóða þeim að afhenda og sækja hjólin þar sem það hentar þeim í yfirbyggðri hjólakerru. Við munum aðeins bjóða uppá hrein og vel við haldin hjól. Hjólakerran verður vel útbúin og munum við geta gert við hjólin á vegum úti ef eitthvað óhapp kemur uppá.” Segir á vefsíðu Karolina Fund.