Vilja auka öryggi flugfarþega með því að reisa skjólstöðvar við fjarstæði

Til stendur að byggja fjórar 250-300 fermetra byggingar á fjarstæðum Keflavíkurflugvallar, til þess að verja farþega sem ganga um borð í flugvélar á fjarstæðum fyrir veðri og vindum. Farþegar muni þá fara með rútum frá flugstöðinni að nýju mannvirkjunum, ganga síðan inn í þau og svo upp um eina hæð og inn í flugvélina í gegnum landgang.
Guðmundur Davíð Rúnarsson, framkvæmdastjóri tækni- og eignasviðs Isavia, staðfestir við mbl.is að stjórn Isavia hafi samþykkt að bjóða út byggingu þessara mannvirkja, en teikningar af þeim má sjá hér að neðan. Vonast er til þess að hægt verði að fara í útboð í vor.