Nýjast á Local Suðurnes

Um 2800 skjálftar síðastliðinn sólarhring

Ekki hefur sést virkni á gossprungunni frá því í gær eftirmiðdag en glóð logar enn í nýja hrauninu og er svæðið óstöðugt og varasamt.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu, en þar segir að uppúr klukkan 21 í gærkvöldi hafi farið að draga úr jarðskjálftavirkni á Reykjanesskaga en gikkskjálftavirkni við Reykjanestá hefur fært sig suðvestar í átt að Eldey og má búast við áframhaldandi jarðskjálftavirkni á meðan svæðið er að jafna sig.

Síðastliðinn sólarhring hafa mælst um 2800 skjálftar á Reykjanesskaga og Reykjaneshrygg í tengslum við kvikuhlaupið. Fjöldi tilkynninga hafa borist Veðurstofunni um að skjálftarnir hafa fundist í byggð, allt frá Hrútafirði að Kirkjubæjarklaustri. Undir lok nætur var skjálftavirknin nokkuð dreifð á kvikuganginum frá Stóra-Skógfelli í suðri og að Vatnsleysuheiði nyrst og dýpi þeirra haldist á um 4-6 km.

Vísindamenn munu funda í morgunsárið og fara yfir stöðuna.