Tekjur lækka um 50% og starfsfólki fækkar við uppsögn þjónustusamnings

Helstu áhrifin af uppsögn vinnumálastofnunar á samningnum um þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd er að áætlaðar tekjur velferðarsviðs á þessu ári lækka og stöðugildum á velferðarsviði mun fækka.
Þetta kemur fram í svörum Heru Óskar Einarsdóttur, framkvæmdastjóra velferðarsviðs, við fyrirspurn sudurnes.net. Tekjur munu lækka um hartnær 50% eða um 124 milljónir króna, þar af sértekjur skrifstofu velferðarsviðs um 35 milljónir króna. Þá fækkar stöðugildum á sviðinu um tvö.
Auk þessa þá er uppsagnarfrestur samningsins af hálfu vinnumálastofnunar þrír mánuðir en uppsagnarfrestur þess húsnæðis sem við höfum haft á leigu vegna þjónustusamningsins almennt sex mánuðir, segir í svari Heru. Vegna þessa misræmis gæti orðið umframkostnaður vegna húsnæðismálanna uppá 15 – 20 milljónir króna.