Nýjast á Local Suðurnes

Styttist í að smáhýsi verði tekin í notkun – Bæjarbúar nálgist umræðuna af nærgætni

Ljósmynd: Reykjanesbær.is / OZZO

Smáhýsi, úrræði fyrir íbúa með fjölþættan vanda, sem eru í byggingu við Njarðvíkurbraut í Innri-Njarðvík, eru að mestu tilbúin og gert er ráð fyrir því að fyrstu íbúar geti flutt inn á næstunni.

Húsin eru nauðsynleg viðbót í fjölbreytta flóru þjónustu velferðarsviðs Reykjanesbæjar, enda eru um 10-13 íbúar sveitarfélagsins í brýnni þörf fyrir þessa tegund búsetuúrræðis, segir í fundargerð velferðarráðs Reykjanesbæjar, sem fjallaði um málið á fundi sínum á dögunum. Gerð hefur verið viljayfirlýsing um samstarf helstu samstarfsaðila í nærsamfélaginu sem þjónusta íbúa með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Sameiginlegt markmið þeirra er að sinna einstaklingsbundinni þjónustu við íbúa smáhúsanna eins og best verður á kosið hverju sinni.

Velferðarráð þakkar fyrir þá góðu vinnu sem unnin hefur verið í þessum málaflokki og fagnar fyrirhuguðu samstarfi á milli Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, Reykjanesapóteks, Frú Ragnheiðar og Lögregluembættisins á Suðurnesjum. Ráðið hvetur til samkenndar og mannúðlegrar nálgunar um verkefnið og óskar þess að bæjarbúar nálgist umræðuna af nærgætni, segir einnig í fundargerðinni.