Nýjast á Local Suðurnes

Stefna á byggingu 126 íbúða á BYKO-reit

Frumdrög að deiliskipulagstillögu Smáragarðs ehf. fyrir „BYKO reitinn“ að Víkurbraut 14 hafa verið lögð fram og rædd í umhverfis- og skipulagsráði Reykjanesbæjar. Gert er ráð fyrir byggingu fimm stakra fjölbýlishúsa á reitnum.

Markmið deiliskipulagstillögunnar er að þétta byggð, styrkja götumyndir svæðisins, auka gæði, stuðla að heildstæðu yfirbragði byggðarinnar og skapa lifandi og fallegt miðbæjarsvæði, segir í drögunum. Stærð skipulagsmarka er um 9100 m2 og afmarkast af Víkurbraut, Baldursgötu, Heiðarvegi og Bryggjuvegi.

Í dag stendur verslun Byko á lóðinni Víkurbraut 14 með verslunarhúsnæði og útisvæði. Áætlað er að umbreyta notkun úr verslun í íbúðarreit (miðsvæði) með fimm stökum fjölbýlishúsum í mismunandi stærðum í samræmi við umhverfið. Húsin raðast á jaðar lóðar, svo hægt sé að skapa skjólgóðan inngarð á milli þeirra, þar sem íbúar Víkurbrautar 14 og nágrannar geta notið. Lögð er áhersla á heildstæða götumynd og samræmi milli eldri og nýrra mannvirkja, með uppskiptingu og hámarks hæðum, í takt við núverandi hús.

Gert er ráð fyrir allt að 126 íbúðum í fjölbreyttum stærðum. Bílastæði eru ofanjarðar og í bílageymslu undir inngarði. Gert er ráð fyrir 1,5 bílastæði á íbúð.

Umhverfis- og skipulagsráð heimilar að unnið sé deiliskipulag fyrir reitinn með fyrirvara um samþykki landeigenda um samkomulag vegna skipulagsvinnunnar.