Stækka fyrirhugað hótel á Fitjum

Til stendur að stækka fyrirhugaða hótelbyggingu World Class við Fitjar um tvær hæðir og verður hótelið 190 herbergi. Þetta kom fram í máli Björns Leifssonar, eiganda fyrirtækisins í morgunþættinum Bítið á Bylgjunni.
Þá kom fram að unnið væri að breytingum á deiliskipulagi en að öðru leiti væri fyrirtækið klárt í að hefjast handa. Björn sagði í viðtali við mannlif.is á síðasta ári að á svæðinu yrði World Class stöð, 2400 fermetra baðlón og heilsuhótel. Þess utan verður sjóbaðsaðstaða með gufu og heitum pottum á svæðinu.
Björn sagði einnig á þeim tíma að nýja heilsuhótelið myndi hafa gríðarlega mikla þýðingu, hann segir að um 100 manns fái vinnu við starfsemina og þá sé ekki búið að taka inn í reikninginn þau umsvif sem verða á framkvæmdatímanum.
Hann á von á því að Íslendingar sæki í nýja lónið ekki síður en erlendir ferðamenn. Þá kom fram í máli Björns að kostnaður við verkefnið væri um 10 milljarðar króna.