Skít dreift yfir vinsælt útivistarsvæði – “Munum finna farsæla lausn á þessu”

Bæjarráði Grindavíkurbæjar barst á dögunum ábending frá íbúum í bænum um að mykju hafi verið dreift yfir vinsælt útivistarsvæði í bænum, Bótina, og var málið tekið fyrir á fundi ráðsins þann 17. október síðastliðinn.
Bæjarráð vísaði málinu áfram til Umhverfis- og ferðamálanefndar sveitarfélagsins, sem aflaði gagna og tók málið fyrir á fundi sínum, en ekki fékkst botn í málið á þeim fundi. Málið mun því einnig fara fyrir fund Skipulagsnefndar bæjarins á næstunni, þar sem ekki er nákvæmlega vitað hver er landeigandi svæðisins þar sem mykjunni var dreift.
“Það er eitthvað á reiki hver er nákvæmlega landeigandi þar sem skítnum var dreift, en ég held að það sé nú vilji allra að skít sé ekki dreift yfir útvistarsvæði. Bótin og svæðið þar í kring er mjög vinsælt sem slíkt. Við munum örugglega finna farsæla lausn á þessu, sem bæði bændur og útivistarfólk geta sætt sig við.” Sagði Siggeir Ævarsson upplýsinga- og skjalafulltrúi Grindavíkurbæjar í svari við fyrirspurn Suðurnes.net.