Nýjast á Local Suðurnes

Of margir nemendur í Akurskóla – Ráðast þarf í meiriháttar breytingar á húsnæðinu

Nemendum sem stunda nám í 6. – 10. bekkjum Akurskóla hefur fjölgað mikið á nýhöfnu skólaári og er svo komið að ráðast þarf í miklar breytingar á skólahúsnæðinu svo hægt sé að sinna kennlu fyrir þennan fjölda. Þetta kemur fram í erindi sem Sigurbjörg Róbertsdóttir, skólastjóri Akurskóla sendi Fræðsluráði Reykjanesbæjar.

Sigurbjörg segir í erindi sínu að skýringuna sé meðal annars að finna í því að fjölskyldur sem flytjast í Dalshverfi ofan Urðabrautar eigi oft fleiri en eitt barn og oft eru eitt til tvö börn að koma í þessa árganga í Akurskóla þar sem Stapaskóli þjónar eingöngu 1. – 5. bekk. Hún segir nú vera svo komið að allir árgangar í 6. – 10. bekk í Akurskóla eru komnir yfir 50 nemendur, einn í hátt í 60 og einn í næstum 70 nemendur. Akurskóli er byggður sem tveggja hliðstæðna skóli og því ljóst að ekki er hægt að þjónusta stærri árganga en 45-50 nemendur í skólanum án þess að fara í meiriháttar breytingar á skólahúsnæðinu.

Þá segir Sigurbjörg að ef fram haldi sem horfir þyrfti að stúka allar stofur af í norðurenda skólans og flytja unglingadeildina þangað eða setja fleiri lausar kennslustofur á lóðina. Til að koma í veg fyrir þennan kostnað fyrir Reykjanesbæ í breytingar sem nýtast aðeins í stuttan tíma óskar hún eftir því að haustið 2020 verði allir nemendur ofan Urðabrautar fluttir í Stapaskóla – Það myndi gera það að verkum hægt væri að sinna þeim nemendum sem búa í skólahverfi Akurskóla án breytinga á skólanum og aukins kostnaðar fyrir sveitarfélagið.