Nýr leikskóli opnar í Reykjanesbæ

Nýr leikskóli í Reykjanesbæ, Drekadalur, hefur nú opnað í hjarta Dalshverfis þrjú í Innri Njarðvík, eftir að hafa verið með starfsemi í tímabundinni aðstöðu í Keili á Ásbrú. Nafnið Drekadalur er valið til að ýta undir ímyndunarafl og sköpunargleði barnanna og hjálpa til við að skapa sannkallaðan ævintýraheim fyrir börn, foreldra og starfsfólk í þessari glænýju og glæsilegu aðstöðu.
María Petrína Berg, leikskólastjóri Drekadals, segir, í tilkynningu, að nýi leikskólinn muni taka á móti um 120 börnum. Fyrsti áfanginn er nú að opna og verða þar þrjár heimastofur sem munu bjóða pláss fyrir 90 börn. Heimastofurnar heita Hákot, Stapakot og Tjarnarkot. Um þessar mundir eru um 50 börn í leikskólanum og hafa þau verið í Keili á meðan beðið var eftir opnun. „Við erum að auglýsa eftir fleiri kennurum í okkar góða hóp til að geta tekið á móti fleiri börnum,“ segir María.

Í seinni áfanga munu heimastofurnar Drekakot og Móakot bætast við. Þar verða allra yngstu börnin í Drekadal og mynda heimastofurnar skemmtilega heild sem tengist umhverfi og staðháttum hverfisins. Hreyfisalurinn ber einnig nafnið Njarðvík sem undirstrikar tengsl við samfélagið.
María Petrína segir að flutningurinn úr Keili í nýju bygginguna hafi gengið ótrúlega vel og starfsfólkið hafi lagt mikið á sig til að allt gengi hnökralaust fyrir sig. Tveir skipulagsdagar voru nýttir til undirbúnings og var unnið fram eftir kvöldi svo hægt væri að taka á móti börnunum í nýjum og glæsilegum rýmum. Hún segir að ánægja sé mikil og að nýtt umhverfi hafi þegar haft góð áhrif á bæði börn og starfsfólk.
Nýi leikskólinn bætir starfsemina á margvíslegan hátt. Rúmgóð og nútímaleg aðstaða skapar aukið svigrúm til fjölbreytts leiks og náms, og hljóðvist, loftræsting og birtuskilyrði stuðla að rólegra og þægilegra umhverfi. Útisvæðið fær einnig sérstakt lof og er talið eitt það glæsilegasta á landinu. Það býður upp á fjölbreytta möguleika til hreyfingar, könnunar og sköpunar sem styrkir félagsfærni, vellíðan og gleði barnanna.
María Petrína segir að starfsfólkið sé einstaklega ánægt með nýja leikskólann. Byggingin sé bæði falleg og muni skapa traustan grunn fyrir leik, nám og daglegt líf barnanna. Hún lýsir miklu þakklæti fyrir að þessi stóráfangi sé loksins orðinn að veruleika.
„Það er ekki á hverjum degi sem nýr leikskóli opnar í Reykjanesbæ. Við erum afar ánægð með þessa viðbót við menntasamfélagið og hlökkum til að sjá börnin okkar blómstra í leik og starfi í Drekadal,“ segir María að lokum.
Myndir: Reykjanesbær




















