Nýjast á Local Suðurnes

Íbúar á Ásbrú eiga erfiðast með að ná endum saman um hver mánaðarmót

Samkvæmt opinni könnun á meðal leigjenda á suðurnesjasvæðinu sem framkvæmd var af skuldlaus.is eiga íbúar á Ásbrú erfiðast með að ná endum saman hver mánaðamót.

Spurt var hvort viðkomandi ætti auðvelt með að ná endum saman. Ríflega helmingur, eða 56%, íbúa í Reykjanesbæ svaraði spurningunni neitandi og 13% sögðu sjaldan. Sambærilegar niðurstöður komu úr könnun Skuldlaus.is á höuðborgarsvæðinu en þar svöruðu 54% spurningunni neitandi en 15% sögðust sjaldan eiga auðvelt með að ná endum saman.

82% þeirra sem svara spurningunni neitandi eru barnafjölskyldur.

„Ég hef mælt með því við fólk sem ég veiti ráðgjöf að halda húsnæðiskostnaði undir 35% af ráðstöfunartekjum. Svo fann ég að það voru óraunhæfar kröfur og ákvað að gera þessa könnun. Niðurstöður hennar eru góð vísbending um raunveruleikann að mínu mati,“ segir Haukur Hilmarsson fjármálaráðgjafi, sem hefur í starfi sínu orðið vitni að því að fólk borgi yfir helming af tekjum sínum í húsnæðiskostnað.

Erfiðast á Ásbru

Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar eiga íbúar á Ásbrú erfiðast við að ná endum saman um hver mánaðarmót en 64% svarenda sem búa á Ásbrú svöruðu spurningunni neitandi. Í Keflavíkurhverfi var hlutfallið 57% en í Njarðvíkurhverfi 47%.

9% þeirra sem svöruðu könnuninni borga yfir 60% af ráðstöfunartekjum sínum í húsaleigu.

Íbúar sem leigja 4 herbergja húsnæði komu verst út í könnuninni. 61% þeirra svara nei við að eiga auðvelt með að ná endum saman og að meðaltali fara 54% ráðstöfunartekna þeirra í húsaleigu fyrir húsaleigubætur. Með húsaleigubótum lækkar hlutfallið að meðaltali í 48%.

Könnunin er enn opin á vefnum skuldlaus.is og eru íbúar Suðurnesja hvattir til að taka þátt í henni.