Nýjast á Local Suðurnes

Höfnuðu hugmyndum um uppbyggingu við Víkingaheima

Tillaga Funabergs fasteignafélags um lísfsgæðakjarna, sem samanstendur af byggingu íbúða, þjónustukjarna og græns svæðis við Víkingaheima fékkst ekki samþykkt af umhverfis- og skipulagsráði Reykjanesbæjar. Fyrirtækið vildi byggja tæplega 20.000 fermetra af íbúðarhúsnæði á svæðinu.

Fyrírtækið, sem hefur verið stórtækt á byggingarmarkaði í Reykjanesbæ undanfarin ár, lagði fram tillögu um að nýta að hluta lóð er tilheyrir nú Víkingaheimum og að hluta til landsvæði Reykjanesbæjar í þessum tilgangi. Því landsvæði sem ekki yrði nýtt undir byggingar/þróun á lífsgæðakjarnanum yrði haldið sem opið svæði/grænt svæði. Núverandi hús Víkingaheima yrði til framtíðar nýtt til þess að styðja við rekstur á lífsgæðakjarnanum, samkvæmt tillögunni.

Fyrirtækið vildi meðal annars byggja 100 herbergja hjúkrunarheimil auk fjölbýlishúsa með íbúðum fyrir 60 ára og eldri.
Samkvæmt tillögunni átti einnig að byggja fimm átta íbúða fjölbýli á tveim hæðum.

Umhverfis- og skipulagsráð fagnaði hugmyndum um uppbyggingu lífsgæðakjarna í Reykjanesbæ en umrætt svæði er opið svæði samkvæmt aðalskipulagi bæjarins og hentar ekki fyrir þessa starfsemi og því var ósk um lóðarstækkun hafnað.