Hissa á afskiptum lögreglu en skellt í varðhald
Landsréttur hefur staðfest gæsluvarðhaldsúrskurð til 4. mars næstkomandi yfir karli á sextugsaldri sem er grunaður um ítrekaðan þjófnað á varningi úr fríhöfn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Maðurinn var handtekinn nú síðast í flugstöðinni og fannst í fórum hans töluvert magn af sígarettukartonum, áfengi og ilmvötnum.
Í úrskurði Héraðsdóms Reykjaness kemur fram að þegar lögregla hafi rætt við manninn hafi hann lítið viljað tjá sig og verið hissa á afskiptum lögreglu. Maðurinn er einnig grunaður um að standa að stórfelldum þjófnaði í fríhöfninni áður, þá í samstarfi við þrjá aðra.
Þá er maðurinn einnig grunaður um stórfellda líkamsárás á höfuðborgarsvæðinu.