Fjárfesta í tæki til snjómoksturs á gervigrasvelli

Reykjanesbær hefur fjárfest í vinnuvél ásamt þeim aukahlutum sem þörf er á til að geta sinnt vetrarþjónustu á gervigrasvellinum vestan Reykjaneshallar, auk annarra verkefna bæði í vetrar- og sumarþjónustu svo sem sópun á göngustígum.

Undanfarið hafa iðkendur, foreldrar og stjórnendur unnið að snjóhreinsun þegar þörf hefur verið á og notað til þess verkfæri sem að mati þeirra sem til þekkja, geta verið skaðleg fyrir gervigrasið.

Samkvæmt upplýsingum frá söluaðila er von á tækinu í byrjun desember. Bæjarráð ræddi málið á dögunum og samþykkti kaupin, auk þess að leggja áherslu á mikilvægi þess að viðeigandi starfsmenn fái þjálfun í notkun tækisins og að innkaupastjóri leiti til tryggingafélags sveitarfélagsins varðandi tryggingar á tækið. Bæjarráð telur að með því að fara þessa leið þá nýtist fjárfestingin sveitarfélaginu best.