Nýjast á Local Suðurnes

Fasteignaskattar langhæstir á Suðurnesjum

Innri - Njarðvík

Skattar og gjöld sem lagðir eru á eigendur fasteigna eru nú hæstir í Suðurnesjabæ þegar borin eru saman þau gjöld sem lögð eru á eigendur fasteigna sem eru um 230 fermetrar að stærð, í sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum. Næst hæst eru gjöldin í Reykjanesbæ og þar á eftir koma Vogar og Grindavík.

Eigendur fasteigna af þessari stærð í Suðurnesjabæ þurfa að greiða rúmar 610 þúsund krónur í fasteignagjöld, vatnsgjald, holræsagjald, lóðarleigu og sorpeyðingargjald. Í Reykjanesbæ er upphæðin litlu lægri eða tæplega 580 þúsund krónur. Það sama á við Sveitarfélagið Voga, þar eru gjöldin um 570 þúsund krónur. Í Grindavík, sem valið var það sveitarfélag sem best er að búa á síðasta ári, eru þessi gjöld um 440 þúsund krónur.

Á höfuðborgarsvæðinu eru upphæðirnar á bilinu frá 330 þúsund krónum í Kópavogi upp í rúmar 380 þúsund krónur þar sem þau eru hæst í Hafnarfirði, en það er það sveitarfélag sem hvað oftast er notast við í samanburði við Reykjanesbæ.

Svipað var uppi á teningnum þegar Byggðastofnun vann samanburð á sömu gjöldum árið 2017 fyrir minni íbúðir, eða 161 fermeter að  stærð. Þá voru gjöldin hæst í Keflavíkurhverfi Reykjanesbæjar eða 387 þúsund og höfðu þá hækkað um rúmar 45 þúsund krónur frá fyrra ári. Næst hæst voru gjöldin í Borgarnesi 364 þúsund. Lægstu gjöldin voru á Vopnafirði, 227 þúsund.

Upplýsingar um ofantalin gjöld eru sótt á heimasíður sveitarfélaganna.