Nýjast á Local Suðurnes

Bókasafnið uppfært til nútímans við flutning í Hljómahöll- Myndir!

Bókasafn Reykjanesbæjar mun opna á nýjum stað í Hljómahöll í byrjun apríl og deila húsnæði með Rokksafni Íslands og Tónlistarskóla Reykjanesbæjar ásamt því viðburðahaldi sem fylgir Stapa og Bergi.

Hönnun bókasafnsins hefur verið í höndum ASK arkitekta en áherslan hefur verið á að uppfæra safnið til nútímans og það að verði einskonar menningarmiðja sveitarfélagsins eins og kemur fram í framtíðarsýn safnsins.

„Ýmis tækifæri skapast á nýjum stað en þar höfum við úr fjölbreyttari rýmum að velja og getum þá boðið upp á meiri þjónustu og betri aðstöðu fyrir viðburðina okkar sem eru alltaf að vaxa og vinsældir að aukast,“ er haft eftir Guðnýju Kristínu Bjarnadóttur, starfandi forstöðumanni bókasafnsins. „Við erum mjög spennt fyrir þessum breytingum og höfum vandað vel til verka síðastliðna mánuði til að nýta húsnæðið sem best með öðrum íbúum hússins og skapa andrúmsloft og aðstöðu sem nýtist íbúum sveitarfélagsins. Við erum auðvitað að þjónusta alla íbúa sem er mjög fjölbreyttur hópur og við leggjum okkur fram við að þjónusta hvern aldurshóp sem best og koma til móts við þeirra þarfir.“

Bókasafnið mun deila rými með Rokksafninu á fyrstu hæð hússins en verður jafnframt með þrjú aðskilin rými á annarri hæð, hnokkadeild, barnadeild og ungmennadeild . „Það verður mjög gaman að sjá hvernig mun takast til þegar horft er til sambúðarinnar við t.a.m. tónlistarskólann. Ungmennadeildin mun t.d. flæða inn á biðsvæði nemenda tónlistarskólans sem við vonumst til að spili vel saman þar sem nemendur geta gluggað í bækur þegar beðið er eftir því að fara inn í tíma,“ bætir Guðný við. Við erum líka mjög spennt fyrir stærri hnokka- og barnadeild þar sem öll aðstaða verður mun betri en verið hefur síðustu ár.

Opnunartími bókasafnsins mun aukast á nýjum stað og verður opið bæði laugardaga og sunnudaga allt árið um kring en nákvæmari tímasetningar verða kynntar þegar nær dregur opnun.

Myndir: Reykjanesbær.