Útlit fyrir að Brynja fái afslátt

Viðræður eru hafnar á milli Reykjanesbæjar og Kadeco varðandi afslátt af byggingarréttargjöldum vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar Brynju leigufélags við Grænásbraut í Ásbrúarhverfi í Reykjanesbæ, en til stendur að byggja sjö íbúða raðhús sem úthluta átti til íbúa með fatlanir.
Reykjanesbær vildi upphaflega að gjöldin yrðu felld niður, en við því gat Kadeco ekki orðið og lýsti bæjarráð sveitarfélagsins yfir vonbrigðum með þá niðurstöðu. Í fréttum RÚV í dag kom fram að viðræður væru hafnar á milli aðila og líklegt yrði að helmings afsláttur yrði veittur af gjöldunum og sagði framkvæmdastjóri Kadeco að um nokkrar milljónir væri að ræða.