Skiptar skoðanir um breytingar á merki UMFN

Óhætt er að segja að skiptar skoðanir eru um breytingar sem gerðar hafa verið á merki Ungmennafélags Njarðvíkur, en sérstök útgáfa af merki félagsins og nýtt ljónamerki, sem sjá má hér fyrir neðan voru kynnt á dögunum.

Nýja merkið vísar til eldra merkis UMFN, sem var einfaldara en núverandi útgáfa. Þetta merki var oftast notað í einlita útgáfu, en einnig í blárri og rauðri útfærslu, segir í kynningu frá aðalstjórn UMFN. Þá segir að ljónið í nýja merkinu tengi við íþróttahús Njarðvíkinga, Ljónagryfjuna, sem og stuðningssveitir félagsins í körfuboltanum, sem oft eru kallaðar ljónin. Merki ljónanna er byggt á gamla skjaldarmerki Njarðvíkurbæjar (Njarðvíkur Nirðinum), þar sem sjávar-kóróna prýðir topp ljónsins. Ljónið er einnig teiknað inn í form merkis félagsins til að tryggja að táknin tali vel saman.

Njarðvíkingar hafa verið duglegir við að tjá sig um hin nýju merki á samfélagsmiðlinum Facebook og eru skoðanir nokkuð skiptar, hvar sumum finnist merkið glæsilegt og tákn um nýja tíma á meðan aðrir eru ekki eins hrifnir. Þá tjá einhverjir sig um framkvæmdina og finnst stjórn félagsins vinna gegn reglum þess með framkvæmdinni.