Nýjast á Local Suðurnes

Markamaskínur Njarðvíkur mæta til Keflavíkur í bikarnum

Nágrannaslagur Bestu-deildarliðs Keflvíkur og 2. deildarliðs Njarðvíkur í 32-liða úrslitum Mjólkurbikars karla í knattspyrnu fer fram á HS-Orkuvellinum í Keflavík í kvöld.

Leikurinn hefst klukkan 19:15 en Njarðvíkingar ætla að hittast í vallarhúsinu í Njarðvík og Keflvíkingar í íþróttahúsinu við Sunnubraut. Á báðum stöðum verður boðið upp á grillaða hamborgara og kalda drykki á góðum prís. Þá verður boðið upp á andlitsmálningu og fleira skemmtilegt fyrir börn.

Njarðvíkingar hafa farið afar vel af stað í 2. deildinni og eru með fullt hús stiga eftir þrjár umferðir. Þá hafa þeir skorað tólf mörk í þeim leikjum og einungis fengið á sig eitt. Meira bras hefur hinsvegar verið á Keflavíkurliðinu í deild hinna bestu hvar falldraugurinn hangir yfir liðinu sem hefur skorað tólf mörk í átta leikjum og fengið á sig sautján.