Margrét gefur ekki kost á sér áfram

Margrét Sanders hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér ér áfram sem oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ í sveitarstjórnarkosningunum vorið 2026, en hún hefur leitt lista flokksins undanfarin átta ár.
Margrét greinir frá þessu á Facebook, í færslu sem sjá má í heild hér fyrir neðan, en þar kemur fram að hún muni nú einbeita sér að eigin rekstri.
Kæru vinir
Eins og sum ykkar vita hef ég ákveðið að gefa ekki kost á mér áfram sem oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ í sveitarstjórnarkosningunum vorið 2026.
Það hefur verið mér mikill heiður og forréttindi að leiða lista sjálfstæðismanna hér í bæ undanfarin átta ár. Traustið sem flokksmenn hafa sýnt mér síðustu ár hefur verið mér ómetanlegt en í síðasta prófkjöri fékk ég stuðning yfir 80% flokksmanna. Takk kærlega
Á síðustu átta árum hefur flokkurinn notið mikils trausts bæjarbúa, en í síðustu tveimur kosningum hlaut flokkurinn flest atkvæði allra flokka. Fyrir það traust erum við sjálfstæðismenn innilega þakklátir. Á þessum árum hef ég átt óteljandi góð samtöl við bæjarbúa, unnið með frábæru fólki og reynt mitt besta til að bæta samfélagið okkar. Það hefur verið bæði krefjandi og gefandi. Það eru nú spennandi tímar fram undan í Reykjanesbæ og ég hef fulla trú á því að flokkurinn komist aftur í meirihluta að loknum kosningum, enda þörf á. Sjálfstæðisflokkurinn stendur sterkur með skýra framtíðarsýn og ég hef fulla trú á að ný forysta muni halda áfram að byggja á þeim grunni sem lagður hefur verið.
Ég mun áfram starfa sem oddviti fram að kosningum og styðja heils hugar þann sem tekur við keflinu.
Næstu misseri hyggst ég einbeita mér að ráðgjafafyrirtækinu mínu, Strategíu, og þeim stjórnum sem ég sit í.
Kærar þakkir fyrir traustið, samstarfið og samstöðuna í gegnum árin.
Margrét Sanders