Keflavíkurborgir verði nýtt hverfi í Reykjanesbæ
Kynningu á skipulagslýsingu fyrir nýtt hverfi í Reykjanesbæ, Keflavíkurborgir, er lokið. Gert er ráð fyrir 170-200 einbýlis-, par-, rað- og fjölbýlishúsalóðum á svæðinu sem afmarkast af Garðskagavegi, Hringbraut og Heiðarbergi.
Nokkrar umsagnir bárust við skipulagstillögna, samkvæmt fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar, Míla minnir á strenglagnir, framkvæmda- og skipulagsráð Suðurnesjabæjar leggur áherslu á að fyrirhuguð uppbygging hafi ekki áhrif á umferðarflæði og hraða um Garðskagaveg frá því sem nú er. Þá bendir Náttúrufræðistofnun Íslands á að svæðið er innan mikilvægs fuglasvæðis, Rosmhvalaness, en þar er langstærsta sílamáfsvarp landsins og því er æskilegt að framkvæmdir hefjist utan varptíma svo þær hafi sem minnst áhrif á fuglalíf.
Umhverfis- og skipulagsráð óskar eftir að tekið verði tillit til innsendra ábendinga og lögð verði fram tillaga á vinnslustigi. Samkvæmt framlagðri tímalínu er gert ráð fyrir að bæjarstjórn samþykki að senda Skipulagsstofnun skipulagið til samþykktar í apríl eða maí næstkomandi og í framhaldinu til auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda, í júní.