Nýjast á Local Suðurnes

Gárur fá tæpar fimm milljónir

Þróunarverkefnið „Gárur á Reykjanesinu – Nærumhverfi til útikennslu“ hefur hlotið 4,7 milljóna króna styrk úr Sprotasjóði.

Reykjanes jarðvangur leiðir verkefnið fyrir hönd samstarfshóps sem samanstendur af öllum grunnskólum og skólaskrifstofum sveitarfélaga á Reykjanesi, ásamt Þekkingarsetri Suðurnesja og GeoCamp Iceland.

Markmið verkefnisins er að efla skapandi útikennslu og styrkja tengsl nemenda við náttúru og samfélag. Kortlagðir verða fjölbreyttir staðir í nágrenni grunnskóla sem nýtast til kennslu í náttúruvísindum, sögu og menningu. Útkoman verður stafrænn gagnabanki með GPS-hnitum, lýsingum, verkefnum og kennsluleiðbeiningum sem nýtast nemendum, kennurum og almenningi til útikennslu og fræðslu innan jarðvangsins.

Verkefnið er mikilvægur liður í að þróa Reykjanes jarðvang sem lifandi lærdómsumhverfi, en jarðvangurinn mun leiða kortlagningu staða til vettvangsnáms, veita fræðilega ráðgjöf og tryggja aðgengi að afurðum verkefnisins fyrir skóla og gesti á svæðinu. Með þessu er byggð brú milli jarðminja, fræðslu og samfélagsþátttöku.

Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra og Bragi Þór Svavarsson, formaður stjórnar sjóðsins, afhentu styrkina við hátíðlega athöfn í mennta- og barnamálaráðuneytinu 11. júní síðastliðinn. Við styrknum tóku Þuríður H. Aradóttir Braun og Brynja Stefánsdóttir, kennari í Stapaskóla, við styrknum fyrir hönd jarðvangsins, en Brynja mun leiða þróun kennsluefnis í verkefninu og tryggja tengingu við aðalnámskrá og hæfniviðmið grunnskóla.