Nýjast á Local Suðurnes

Besta ár í sögu Skólamatar

Skólamatur velti 3,2 milljörðum króna á síðasta ári en til samanburðar nam velta ársins á undan 2,7 milljörðum. Velta félagsins hefur aukist verulega á undanförum árum. Til marks um það nam veltan 1,4 milljörðum árið 2020 og hefur hún því rúmlega tvöfaldast á fjórum árum.

Þetta kemur fram í umfjöllun Viðskiptablaðsins, en þar segir einnig að á sama tíma hefur hagnaður félagsins einnig aukist. Í fyrra nam hagnaðurinn 155 milljónum og rúmlega tvöfaldaðist frá fyrra ári er hann nam 74 milljónum. Árið 2024 var besta rekstrarár í sögu Skólamatar, bæði þegar horft er til veltu og hagnaðar.

Í lok árs 2020 var meðalfjöldi stöðugilda hjá félaginu 93 en í lok síðasta árs, fjórum árum síðar, voru þau 137, þannig hefur meðalfjöldi stöðugilda aukist um 47% á fjórum árum. Um 200 manns starfa alls í þessum 137 stöðugildum á 90 starfsstöðvum á suðvesturhorni landsins en höfuðstöðvar félagsins eru í Reykjanesbæ.