Nýjast á Local Suðurnes

Fresta byggingu hringtorgs og boða til íbúafundar

Meirihluti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar samþykkti á fundi sínum að afgreiðslu varðandi byggingu hringtorgs við Fitjabakka verði frestað og tekið aftur fyrir í bæjarstjórn þann 3. júní næstkomandi. Á tímabilinu verður einnig boðað til íbúafundar með íbúum Ásahverfis, sem afhentu bæjarstjórn undirskriftalista, þar sem núverandi tillögu var mótmælt.

Malið var rætt á bæjarstjórnarfundi og eftirfarandi bókanir lagðar fram af fulltrúum meiri- og minnihluta:

Bókun meirihluta:

„Nú liggur fyrir tillaga um hringtorg við Njarðarbraut og Fitjabakka sem hefur tvisvar verið samþykkt einróma í umhverfis- og skipulagsráði. Á fundi ráðsins 9. maí 2025 kom fram að útfærsla A er talin vænlegust með tilliti til umferðarflæðis, öryggis og hagkvæmni. Valkostur B (hringtorg við Bergás) skilar ekki sama ávinningi og hefur neikvæð áhrif á útivistarsvæði sem nýtur hverfisverndar.

Um er að ræða mikilvæga samgöngubót – stærsta hringtorg innanbæjar sem mun styðja við stækkun Njarðarbrautar og aukna umferð vegna flutnings stórra fyrirtækja á svæðið. Framkvæmdin er tilbúin og getur hafist strax í sumar.

Hringtorgið mun létta á umferð um Njarðarbraut og Vallarás og bæta aðgengi að Fitjum. Auk þess mun það draga úr hættu á árekstrum, þar sem nú þurfa bílar að stoppa á aðalgötunni til að beygja, m.a. inn að ÓB.

Meirihluti bæjarstjórnar vill undirstrika að í öllum framkvæmdum er lögð áhersla á umferðaröryggi og hagkvæma nýtingu fjármuna, í samræmi við ráðgjöf sérfræðinga Eflu og þróun ört stækkandi sveitarfélags.

Ljóst er að málið nýtur stuðnings allra fulltrúa í skipulagsráði. Áhyggjur íbúa Ásahverfis hafa þó komið fram og verið settar fram í undirskriftasöfnun. Meirihlutinn leggur því til að boðað verði til íbúafundar þar sem farið verður yfir fyrirhugaða framkvæmd, önnur áform á svæðinu og tryggingu öryggis gangandi og hjólandi vegfarenda.

Meirihlutinn leggur því til að afgreiðslu verði frestað og tekið aftur fyrir í bæjarstjórn þann 3. júní.“

Bókun minnihluta:

„Sjálfstæðisflokkurinn fagnar fyrirhuguðum íbúafundi með íbúum Ásahverfis, og vonar að hlustað verði á umkvartanir íbúa og fyrirtækjaeigenda á svæðinu.“