Nýjast á Local Suðurnes

Fella niður leikskólagjöld hafi foreldrar börn sín heima

Neyðarstjórn Grindavíkurbæjar og stjórnendur leik- og grunnskóla funduðu í dag í kjölfar ákvarðana um samkomubann og takmörkun á starfi leik- og grunnskóla. Á fundinum kom meðal annars fram að leikskólagjöld verða felld niður ákveði foreldrar að halda börnum sínum heima.

Hafi foreldrar eða forráðamenn tök á að hafa börn sín heima í stað þess að þau séu í leikskóla eða skólaseli þá er óskað eftir því að skólanum sé tilkynnt um það sem fyrst. Vistunargjöld í skólaseli og leikskóla munu verða felld niður þann tíma sem foreldrar eru með börn sín heima.

Fólk er hvatt til að fylgjast vel með heimasíðu bæjarins, sem og Mentor, Karellen og tölvupósti vegna nýrra tilkynninga.

Þessi sami hópur mun funda aftur kl. 15:00 á sunnudag og þá mun verða ljóst hvernig tilhögun skólastarfs verður á mánudag, 16. mars nk.