Nýjast á Local Suðurnes

Fékk bætur eftir handtöku en var þó ekki handtekinn

Karlmanni var á dögunum dæmdar bætur í héraðsdómi vegna handtöku af hálfu Lögreglustjórans á Suðurnesjum. Fyrir dómi báru lögreglumenn því við að viðkomandi einstaklingur hafi ekki verið handtekinn, en því var dómari greinilega ekki sammála.

Lögmannsstofan Jura sá um málið fyrir hönd mannsins og greina frá niðurstöðunni í færslu á Facebook, hvar gert er góðlátlegt grín að embætti lögreglunnar á Suðurnesjum.

Færslan í heild sinni:

Við hjá Lögmannsstofunni Jura höfum nýlega lokið skaðabótamáli fyrir hönd Ingólfs Vals vegna handtöku af hálfu Lögreglustjórans á Suðurnesjum, sem hann þurfti að þola að ósekju og að óþörfu. Héraðsdómur Reykjavíkur féllst á kröfur Ingólfs og dæmdi honum miskabætur.

Í málinu báru lögreglumenn Lögreglustjórans á Suðurnesjum því við að þeir hefðu hreint ekkert handtekið Ingólf! Ljóst er því að þjálfunin hjá lögreglunni suður með sjó er ekki upp á marga fiska, þegar fyrir liggur að grundvallaratriði, líkt og hvað handtaka er, eru ekki á hreinu þar á bæ.

Við kunnum Ingólfi þakkir fyrir traustið og erum þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að standa með honum í þessu máli.

Fyrirvari: Sú staðreynd að Úlfar Lúðvíksson, fyrrum lögreglustjóri á Suðurnesjum, hafi ákveðið að taka pokann sinn 5 dögum eftir dómsuppkvaðningu, er ekki endilega tengd málinu.