Ekkert áætlunarflug um Keflavíkurflugvöll í nótt

Ekkert áætlunarflug verður um Keflavíkurflugvöll frá klukkan tvö í nótt og fram til klukkan sjö í fyrramálið vegna yfirvinnubanns flugumferðarstjóra. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Isavia. Þar segir að á tímabilinu sem um ræðir hafi 20 vélar átt að koma frá Norður-Ameríku og sjö vélar átt að leggja af stað til Evrópu.
Undantekning sé gerð fyrir sjúkra-og neyðarflug. Í tilkynningunni kemur fram að vegna veikinda tveggja flugumferðarstjóra, sem áttu að vera á vakt í nótt, hafi þurft að fella niður áætlunarflug. Vegna yfirvinnubannsins fáist ekki flugumferðarstjórar til afleysinga.