Nýjast á Local Suðurnes

Suðurnesjamaður á stóran þátt í stærstu stund íslenskrar hnefaleikasögu

Stærsta stund íslenskrar hnefaleikasögu mun eiga sér stað á laugardag þegar Valgerður Guðsteinsdóttir verður fyrsti Íslendingurinn til að keppa í titilbardaga hjá einu af þremur stóru alþjóðlegu hnefaleikasamböndunum, en þá mætir hún ríkjandi Evrópumeistara, Katarinu Thanderz frá Noregi.

Valgerður segir í samtali við RÚV að hún hafi alls ekki átt von á því að fá svo stórt tækifæri svona snemma á ferlinum og þakkar meðal annars umboðsmanni sínum, Suðurnesjamanninum Guðjóni Vilhelm, sem hún segir vera mjög öflugann, en aðdragandinn var mjög stuttur þar sem franskur mótherji Kararinu gat ekki mætt til keppni, og því í mörg horn að líta.

„Hún er ríkjandi Evrópumeistari. Svo dettur þessi franska út af einhverjum ástæðum í síðustu viku. Þá er farið að leita og ég var ofarlega á lista, með góðan umboðsmann, og ég vakti athygli í síðustu bardögum. Ég fékk níu daga fyrirvara. Það var hringt í mig 1. mars og mér boðið þetta tækifæri.“ segir Valgerður í viðtalinu, sem finna má í heild sinni hér.

Guðjón Vilhelm hefur verið öflugur innan hnefaleikahreyfingarinnar undanfarin ár, en hann var ötull talsmaður þess að leyfa hnefaleika á Íslandi auk þess sem hann kom að stofnun Hnefaleikafélags Reykjaness og var formaður þess félags fyrstu árin.

Ekki er ljóst hvort bardaginn verði sýndur í beinni útsendingu hér á landi en hægt verður að ná honum í beinni á Viaplay í Sviþjòð, Finnlandi, Noregi, og Danmörku.