Nýjast á Local Suðurnes

Ljósanótt með svipuðu sniði – Framlag bæjarbúa skipar sífellt stærra hlutverk

Blöðrum verður ekki sleppt við setningarathöfnina að þessu sinni

Menningarráð Reykjanesbæjar lagði til á fundi sínum þann 11. maí síðastliðinn að umsjón og framkvæmd Ljósanætur verði á svipuðum nótum og á síðasta ári, um leið og nýjar hugmyndir frá íbúfundi í vetur verði hafðar í huga.

Ráðið telur ljóst að hátíðin færist sífellt meira í þá átt að verða svokölluð „þátttökuhátíð“ og skipar framlag bæjarbúa sífellt stærra hlutverk. Ráðið lýsti ánægju sinni með þá þróun á síðasta fundi sínum og hvetur fyrirtæki, félagasamtök og einstaklinga til að setja mark sitt á hátíðina.  Sumir leggja til viðburði og vinnu á meðan aðrir leggja til fjármagn og saman gera bæjarbúar þetta að flottustu fjölskyldu- og menningarhátíð landsins.

Ráðið vekur athygli á að nokkrir viðburðir eru orðnir fastir og mega ekki missa sín:

Fimmtudagur:
Setning hátíðarinnar með öllum nemendum bæjarins við Myllubakkaskóla.
Sölutjöldin sett upp, og kvöldopnanir verslana.
Opnanir myndlistarsýninga í Duus Safnahúsum o.fl. stöðum.

Föstudagur:
Kjötsúpan og létt dagskrá á hátíðarsvæði.
Tónleikar á vegum íbúanna víða um bæinn, heimahús og veitingahús.

Laugardagur:
Árgangagangan
Útiskemmtun á Bakkalág
Stórtónleikar á útisviði á Bakkalág.

Sunnudagur:
Tónleikar og sýningar víða um bæinn.