Nýjast á Local Suðurnes

Titringur innan Stopp-hópsins – Gagnrýni á breyttar áherslur

Titrings gætir innan Stopp-hópsins svokallaða, sem settur var á laggirnar til að þrýsta á um framkvæmdir við tvöföldun Reykjanesbrautar. Töluverð óánægja virðist vera á meðal meðlima hópsins vegna þess sem sumir telja vera áherslubreytingar í baráttunni um fjármagn í tvöföldun Reykjanesbrautar. Þá má finna skoðanamun á milli stofnenda hópsins í umræðum á Facebook-síðu Stopp – Hingað og ekki lengra!

Hópurinn telur tæplega 20.000 meðlimi um þessar mundir og í umræðum á Facebook-síðu hópsins gagnrýna meðlimir hans stofnendur hópsins vegna tengsla við ráðherra samgöngumála, en Ísak Ernir Kristinsson, einn af þremur stofnendum hópsins var á framboðslista fyrir Sjálfstæðisflokkinn í síðustu kosningum til Alþingis og Guðbergur Reynisson er formaður félags flokksins í Reykjanesbæ. Ráðherra samgöngumála hefur sem kunnugt er talað fyrir álagningu vegtolla og þeirri hugmynd virðist Guðbergur vera fylgjandi í umræðum á Facebook-síðu Stopp hópsins, og það eru sumir ósáttir við, þar á meðal þriðji stofnaðilinn, Atli Már Gylfason, en hann skrifar langan pistil um málið á Facebook-síðunni. Þá hefur Atli Már lýst því yfir í umræðum innan hópsins að hann sé fylgjandi róttækari aðgerðum varðandi tvöföldun Reykjanesbrautar en hingað til hefur verið farið í, en hann er sá eini þeirra þriggja sem ekki hefur tengsl við stjórnmálaflokk.

Óánægjan virðist því helst snúa að því svo virðist sem átt hafi sér stað áherslubreytingar varðandi  baráttumál Stopp – Hingað og ekki lengra! hópsins, á þá leið að rétt sé að taka upp vegatolla á stofnleiðir til og frá höfuðborgarsvæðinu til að fjármagna framkvæmdir, meðal annars við tvöföldun Reykjanesbrautar – Innan hópsins er, eins og áður segir, að því er virðist mikil andstaða við vegatollahugmyndir ráðherra til fjármögnunar verkefna og hafa þátttakendur í umræðunum á Facebook-síðunni bent á að hópurinn hafi í upphafi verið stofnaður til að þrýsta á að stjórnvöld réðust í framkvæmdir við tvöföldun Reykjanesbrautar án tafar og með þeim fjármunum sem þegar eru innheimtir af bíleigendum í gegnum hina ýmsu skatta og gjöld.

Ýmsir benda þó á að hópurinn hafi náð að koma mikilvægum verkefnum til leiðar, til dæmis verður á næstu dögum hafist handa við gerð tveggja hringtorga á Reykjanesbraut, á næsta ári verður hafist handa við að tengja Hafnaveg við hringtorg á Fitjum, auk þess sem tvöföldun Reykjanesbrautar frá flugstöð að Hafnarfirði er komin á samgönguáætlun.

Uppfært kl. 22:15.: Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar kom fram að Guðbergur Reynisson hafi verið skipaður í starfshóp um fjármögnun mögulegra framkvæmda við vegakerfið, á vegum ráðherra samgöngumála – Það er ekki rétt og hefur sú málsgrein verið tekin úr fréttinni. Guðbergur var aftur á móti skipaður formaður Fagráðs um umferðarmál af samgönguráðherra.