Stapaskóli hlýtur viðurkenningu

Stapaskóli í Reykjanesbæ hefur hlotið viðurkenningu fyrir eTwinning verkefni ársins 2025 á Íslandi fyrir verkefnið Ink of Unity – Celebrating our True Colors. Viðurkenningin var afhent á hátíðlegum viðburði þar sem Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, veitti verðlaun Erasmus+ fyrir framúrskarandi skólastarf og nýsköpun í tungumálakennslu.
Verkefnið Ink of Unity var unnið undir handleiðslu kennaranna Hólmfríðar Rúnar Guðmundsdóttur og Selmu Ruth Iqbal í samstarfi við skóla víða um Evrópu. Markmið þess er að efla skapandi tjáningu, samvinnu og gagnkvæma virðingu meðal nemenda með sameiginlegum listrænum verkefnum.
Þetta frábæra verkefni fangar kjarnann í eTwinning sem miðar að því að efla alþjóðavitund, fjölmenningu og samskiptahæfni ungs fólks í gengum list og tungumál.
Auk titilsins eTwinning verkefni ársins hlutu Hólmfríður og Selma einnig gæðaviðurkenningu eTwinning frá Rannís og Landskrifstofu Erasmus+ fyrir metnaðarfulla vinnu í alþjóðlegu skólasamstarfi, segir í frétt á vef Reykjanesbæjar.




















