Nýjast á Local Suðurnes

Samþykkja fjárhagsáætlanir – Öll sveitarfélögin á Suðurnesjum í plús

Fjárhagsáætlanir hafa verið samþykktar í öllum sveitarfélögunum á Suðurnesjum, en gert er ráð fyrir að öll verði þau réttu megin við núllið í lok næsta árs.

Reykjanesbær, langstærsta sveitarfélagið á Suðurnesjum gerir ráð fyrir að rekstrarniðurstaða samstæðu verði um 909 milljónir króna. Gert er ráð fyrir að skuldaviðmið sveitarfélagsins fari upp í 144% á næsta ári, en það er helst vegna byggingar Stapaskóla. Gert er ráð fyrir að skuldaviðmið verði komið niður í 128% ári síðar.

Grindavíkurbær gerir ráð fyrir 253 milljóna króna afgangi á næsta ári og samkvæmt áætlunum mun handbært fé sveitarfélagsins verða rúmur milljarður króna í lok næsta árs.

Í Vogum er ráð gert fyrir að rekstur samstæðunnar skili 37 milljóna króna afgangi á næsta ári. Það fé verður að mestu nýtt í framkvæmdir sem taldar eru nauðsynlegar, en ráðist verður í að endurnýja götur og yfirborð þeirra og gert ráð fyrir lagningu göngu- og hjólreiðastígar milli Voga og Brunnastaðahverfis.

Suðurnesjabær gerir ráð fyrir að rekstrarniðurstaða A og B hluta verði 172 milljónir króna. Áætlað er að skuldahlutfall í árslok 2020 verði 93,1% og skuldaviðmið 61,2%. Hámarks hlutfall skuldahlutfalls og skuldaviðmiðs samkvæmt sveitarstjórnarlögum er 150%.